Fara í innihald

Vatíkanið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vatíkan­borgríkið
Status Civitatis Vaticanae
Stato della Città del Vaticano
Fáni Vatíkansins Skjaldarmerki Vatíkansins
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Inno e Marcia Pontificale
Staðsetning Vatíkansins
Höfuðborg Vatíkanið
Opinbert tungumál latína (de jure)
ítalska (de facto)
Stjórnarfar Einveldi

Páfi Leó 14.
Forsætisráðherra Pietro Parolin
Nefndarforseti Raffaella Petrini
Sjálfstæði frá Frankaveldi og Ítalíu
 • Gjöf Pippins 756 
 • Lateransamningarnir 11. febrúar 1929 
Flatarmál
 • Samtals
195. sæti
0,49 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2024)
 • Þéttleiki byggðar
237. sæti
882
1800/km²
VÞL 0,02
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .va
Landsnúmer +379

Vatíkanið eða Páfagarður (latína: Status Civitatis Vaticanae, ítalska: Stato della Città del Vaticano) er örríki og borgríki undir stjórn Páfastóls. Höfuð kaþólsku kirkjunnar, páfinn, er einráður yfir því. Landið er landlukt en eina ríkið sem það á landamæri að er Ítalía, enda er ríkið staðsett inni í Rómaborg sem það er sögulega séð hluti af.[1][2] Vatíkanið varð sjálfstætt frá Ítalíu með Lateransamningunum árið 1929. Þar er það skilgreint sem aðskilið yfirráðasvæði í eigu Páfastóls sem er fullvalda stjórn og dómsvald þar. Páfastóll er fullvalda aðili að alþjóðarétti og fer með veraldlegt vald yfir Vatíkaninu. Páfinn og páfastjórn (Curia Romana) mynda Páfastól.[3]

Vatíkanið er 49 hektarar að stærð og íbúafjöldi var um 882 árið 2024.[4] Það er því minnsta og fámennasta fullvalda ríki heims.[5] Það er líka með eina fámennustu höfuðborg heims. Þar sem yfirstjórn Vatíkansins er jafnframt yfirstjórn kaþólsku kirkjunnar, er Vatíkanið klerkaveldi undir stjórn páfa, sem er biskup Rómar og höfuð kaþólsku kirkjunnar.[6][7] Æðstu embættismenn Vatíkansins eru allir kaþólskir klerkar af einhverju tagi. Eftir að páfastóll var fluttur aftur til Rómar frá Avignon árið 1377 hefur opinbert aðsetur páfa verið í Páfahöllinni þar sem Vatíkanið er nú, þótt páfi hafi áður lengst af búið í Kvirinalhöll í Róm og fleiri stöðum.

Páfastóll (biskupsstóll Rómar) var stofnaður í frumkristni og er helsta biskupsdæmi kaþólsku kirkjunnar, sem um 1.329 milljónir manna tilheyra (miðað við 2018).[8] Borgríkið Vatíkanið var hins vegar stofnað 11. febrúar 1929 þegar Páfastóll og ítalska ríkið gerðu með sér Lateransamningana þar sem kveðið er á um stofnun nýs ríkis. Vatíkanið er þannig ekki framhald á Páfaríkinu (756-1870) sem áður náði yfir stóran hluta Mið-Ítalíu.

Í Vatíkaninu er að finna fjölmarga markverða staði eins og Péturskirkjuna, Sixtínsku kapelluna, Vatíkanbókasafnið og Vatíkansöfnin.[9] Þar getur að líta mörg af frægustu málverkum og höggmyndum heims. Efnahagur Vatíkansins byggist á framlögum frá kaþólikkum um allan heim, sölu frímerkja og minjagripa, aðgangseyri að söfnum og tekjum af útgáfu. Í Vatíkaninu eru hvorki innheimtir skattar né tollar.[10]

Heitið „Vatíkanborg“ (Civitas Vaticana) var fyrst notað í Lateransamningunum sem voru undirritaðir 11. febrúar 1929. Samkvæmt samningunum var stofnað borgríki og nefnt eftir Vatíkanhæð á vesturbakka Tíber. Orðið kemur frá etrúskri byggð, Vatica eða Vaticum, á svæði sem Rómverjar kölluðu Ager Vaticanus („Vatíkanakur“).[11]

Á ítölsku er nafn borgríkisins Città del Vaticano, eða Stato della Città del Vaticano, sem merkir einfaldlega „ríki Vatíkanborgar“. Á latínu er nafnið Status Civitatis Vaticanae[12][13] og það heiti er notað í opinberum skjölum Páfastóls og páfa.

Vatíkansúlan á Péturstorginu var flutt til Rómar frá Egyptalandi í valdatíð Kalígúlu.

Á tímum rómverska lýðveldisins var votlendissvæði á vesturbakka Tíber, utan við borgina, milli Janikúlumhæðar, Vatíkanhæðar og Mario-fjalls, nefnt Ager Vaticanus „Vatíkanakur“. Þetta svæði náði niður að Aventínhæð og allt upp að ármótum Cremera við Tíber.[14] Örnefnið Ager Vaticanus var notað fram á 1. öld, en eftir það var heitið Vaticanus notað yfir smærra svæði, eða Vatíkanhæð, svæðið þar sem Péturstorgið er nú, og hugsanlega þar sem Via della Conciliazione er í dag.[14] Vegna þess hve svæðið var nálægt helsta óvini Rómar, etrúsku borginni Veii (önnur nöfn yfir Ager Vaticanus voru Ripa Veientana og Ripa Etrusca), höfðu Rómverjar illar bifur á þessu svæði.[15]

Rómverska skáldið Martialis (40-102) ritaði um léleg gæði víns frá Vatíkaninu, jafnvel eftir að landið var þurrkað upp.[16] Sagnaritarinn Tacitus skrifaði að árið 69 (ár keisaranna fjögurra), þegar norræni herinn hafði komið Vitellíusi til valda hafi hann sett upp búðir í Vatíkaninu, þar sem margir hermenn hafi látist vegna sjúkdóma.[17]

Á keisaratímanum voru reistar hallir á þessu svæði, eftir að Agrippína eldri (14 f.Kr.-18. október 33) þurrkaði svæðið upp og setti þar upp garða snemma á 1. öld. Árið 40 byggði sonur hennar, keisarinn Kalígúla (ríkti 37-41) skeiðvöll fyrir stríðsvagnakappakstur í görðunum hennar, sem Neró lauk síðar við og fékk nafnið Circus Gaii et Neronis,[18] en er oftast kallaður Skeiðvöllur Nerós.[19]

Vatíkansúlan á Péturstorginu er það eina sem eftir er af Skeiðvelli Nerós. Hún var flutt frá Helíópólis í Egyptalandi í valdatíð Kalígúlu. Steinsúlan stóð upphaflega í miðju (spina) skeiðvallarins.[20] Á skeiðvellinum liðu margir kristnir menn píslarvættisdauða eftir brunann mikla í Róm árið 64. Samkvæmt sagnahefðinni var Pétur postuli krossfestur með höfuðið niður á þessum stað.[21] Steinsúlan var flutt á núverandi stað árið 1586 í valdatíð Sixtusar 5. páfa með aðferð sem ítalski arkitektinn Domenico Fontana hannaði.[22]

Á móti skeiðvellinum, hinum megin við Via Cornelia, var grafreitur. Þar voru reist minnismerki, stór og lítil grafhýsi, og ölturu til hinna ýmsu guða ólíkra fjölgyðistrúarbragða, sem stóðu þar þar til Péturskirkja Konstantínusar var reist á fyrri helmingi 4. aldar. Helgidómur frýgversku gyðjunnar Kýbele og Attis eiginmanns hennar stóð þar löngu eftir að kirkjan var reist.[23] Leifar af þessum forna grafreit hafa verið grafnar upp af ýmsum páfum á ýmsum tímum, sérstaklega eftir endurreisnina. Skipulegur fornleifauppgröftur fór þar fram í valdatíð Píusar 12. milli 1939 og 1941. Kirkja Konstantínusar var reist árið 326 ofan við það sem menn töldu vera gröf heilags Péturs í grafreitnum.[24]

Frá því kirkjan var reist fjölgaði íbúum á svæðinu þar í kring. Höll var reist þar nálægt á 5. öld, í valdatíð Symmakusar páfa (498-514).[25]

Páfaríkið

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar svæðið varð aðsetur biskupsins í Róm og síðar páfans þar í borg fór byggingum þar smám saman að fjölga, einkum eftir að Páfagarður fór að verða pólitísk stofnun og ekki aðeins trúarleg. Eftir fall Rómverska keisaradæmisins var Róm oftast undir stjórn páfa eða einhvers veldis sem naut stuðnings hans (svo sem Heilaga rómverska ríkisins). Smám saman jókst veraldleg umsýsla páfa. Lönd sem heyrðu undir páfastól voru kölluð Páfaríkið. Páfaríkið náði yfir stóran hluta Mið-Ítalíu í meira en þúsund ár, en um miðja 19. öld varð sameining Ítalíu til þess að héruðin voru innlimuð í Konungsríkið Ítalíu.

Lengst af á þessum tíma bjó páfi ekki í Vatíkaninu. Lateranhöll, sem var á allt öðrum stað í borginni, var hefðbundinn íverustaður páfa í um þúsund ár. Frá 1309 til 1377 var páfastóll í Avignon í Frakklandi. Þegar páfi sneri aftur til Rómar tók hann upp búsetu í Vatíkaninu, en árið 1583 var Kvirinalhöll gerð að sumarhöll. Páll 5. páfi lauk við endurbyggingu hallarinnar í byrjun 17. aldar. Þegar ítalski herinn hertók Rómaborg árið 1870 lokaði páfi sig inni í höll sinni í Vatíkaninu og Kvirinalhöll varð aðsetur konungs Ítalíu þegar Róm varð höfuðborg hins nýja ríkis árið eftir.

Undir ítalskri stjórn

[breyta | breyta frumkóða]

Milli 1861 og 1929 var talað um „rómverska vandamálið“[26] og eftir innlimun Rómar í Ítalíu 1870 varð til óvissa um stöðu eigna páfastóls. Páfagarður undi aldrei ósjálfstæðinu, eftir að hafa verið eitt mesta pólitíska afl Vesturlanda. Í langan tíma voru páfarnir ekki á því að hætta öllum diplómatískum afskiptum, sem þeir þó neyddust til að gera.

Ítalska ríkið hafði engin afskipti af páfa innan veggja Vatíkansins, en gerði hins vegar eigur kirkjunnar víða upptækar. Árið 1871 tók konungur Ítalíu yfir Kvirinalhöll og gerði hana að konungshöll. Eftir það fengu páfar að sitja óáreittir í Vatíkaninu og sérstök lög tryggðu þeim ákveðin forréttindi, eins og að mega taka við erlendum erindrekum. Páfi viðurkenndi hins vegar ekki rétt ítalska konungsins til yfirráða í Róm og neitaði að yfirgefa Vatíkanið þar til deilan var leyst. Píus 9., síðasti páfinn sem ríkti yfir Páfaríki, kallaði sig „fanga í Vatíkaninu“.[27] Á þessum tíma varð vald páfa fyrst og fremst andlegt.[28]

Páfagarður og Ítalía deildu um þess mál til 1929 þegar fasistaríkisstjórnin á Ítalíu samþykkti sjálfstæði Vatíkansins með Lateransamningunum. Samningarnir voru undirritaðir af Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu, fyrir hönd konungsins, Viktors Emmanúels 3., og utanríkisráðherra páfa, Pietro Gasparri kardinála, fyrir hönd páfa, Píusar 11.[29][3][30] Samningurinn sem var staðfestur[31] og tók gildi 7. júní 1929,[32] gerði Vatíkanið að sjálfstæðu ríki og kvað auk þess á um sérstaka stöðu kaþólskrar trúar á Ítalíu.[30]

Síðari heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]
Tónlistarmenn úr 38. írska herfylki leika fyrir framan Péturskirkjuna í júní 1944.

Í síðari heimsstyrjöld lýsti Páfastóll undir stjórn Píusar 12. yfir hlutleysi. Herlið Þriðja ríkisins hernam Róm í september 1943 eftir að ný ríkisstjórn Ítalíu samdi um vopnahlé, en bandamenn hröktu það þaðan árið 1944. Báðir aðilar virtu hlutleysi Vatíkansins.[33] Eitt af forgangsmálum Píusar 12. var að koma í veg fyrir sprengjuárásir á borgina, og hann mótmælti jafnvel dreifingu áróðursbæklinga úr flugvélum breska flughersins.[34]: 222–232  Stefna bresku stjórnarinnar var að forðast allan yfirgang gagnvart Vatíkaninu, en að umgengni við aðra staði í borginni færi eftir því hvort ítalska ríkisstjórnin virti skilyrði.[34]: 222–232 

Þegar Bandaríkjamenn hófu þátttöku í stríðinu voru yfirmenn þar á móti sprengjuárásum á Vatíkanið vegna ótta við viðbrögð kaþólskra hermanna, en sögðust ekki myndu stöðva Breta í að varpa sprengjum á borgina, ef þeir kysu það. Bandaríkjaher leyfði jafnvel kaþólskum hermönnum að segja sig frá þátttöku í loftárásum á Róm og aðra kaþólska helgistaði. Enginn hermaður kaus að nýta sér þessa undanþágu. Bretar lýstu því hins vegar yfir að þeir myndu varpa sprengjum á Róm eftir því sem þörf krefði.[34]: 232–236 

Í desember 1942 stakk breskur sendiherra í Páfagarði upp á því að Róm yrði lýst óvarin borg, en Mussolini hafnaði hugmyndinni. Þegar innrás bandamanna á Sikiley hófst, gerði bandaríski flugherinn loftárásir á Róm sem beindust sérstaklega að járnbrautarlínum. Um 1500 manns létu lífið og Píus 12. sem var sagður veikur af áhyggjum yfir mögulegum sprengjuárásum heimsótti staði sem urðu fyrir þeim. Önnur sprengjuárás átti sér stað 13. ágúst 1943, eftir að Mussolini var steypt af stóli.[34]: 236–244  Næsta dag lýsti ríkisstjórn Ítalíu Róm óvarða borg eftir að hafa ráðfært sig við Páfastól um orðalag yfirlýsingarinnar.[34]: 244–245 

Eftir stríð

[breyta | breyta frumkóða]
Útsýni yfir Péturstorgið frá þaki Péturskirkjunnar.

Píus 12. lét vera að skipa nýja kardinála á stríðstímum. Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk voru margar mikilvægar stöður lausar, þar á meðal staða utanríkisráðherra, fjármálaráðherra, kanslara, og umsjónarmanns trúarregla og trúarsafnaða.[34]: 304  Píus 12. skipaði 32 nýja kardinála árið 1946 eftir að hafa tilkynnt þá fyrirætlun sína í jólapredikun árið áður.

Páfaherinn (fyrir utan svissneska vörðinn) var leystur upp með bréfi Páls 6. 14. september 1970.[35] Herlögreglu Vatíkansins var breytt í borgaralegt lögreglulið.

Árið 1984 var gert nýtt samkomulag milli Páfastóls og Ítalíu þar sem tilteknum ákvæðum Lateransamninganna var breytt. Þar á meðal var afnám stöðu kaþólskunnar sem ríkistrúar, en kveðið hafði verið á um það frá stöðulögum Konungsríkisins Sardiníu 1848.[30]

Árið 1995 var bygging nýs gestahúss, Domus Sanctae Marthae, við hlið Péturskirkjunnar gagnrýnd af umhverfissamtökum með stuðningi ítalskra stjórnmálamanna, sem héldu því fram að nýja byggingin myndi skyggja á útsýni að kirkjunni frá nærliggjandi íbúðum.[36] Um stutt skeið olli þetta spennu í samskiptum Vatíkansins við ríkisstjórn Ítalíu, en Vatíkanið hafnaði öllum tilraunum til að skerða rétt þess til að reisa byggingar innan sinna landamæra.[36]

Í valdatíð Jóhannesar Páls páfa 2. jók Vatíkanið afskipti sín af alþjóðastjórnmálum á ný, og nýtti sér það að eiga áheyrnarsæti í flestum helstu alþjóðastofnunum nútímans.[37] Breski lögfræðingurinn John R. Morss hefur haldið því fram að staða Vatíkansins sem fullvalda ríkis byggist á óhefðbundnum grunni og sé ýmsum vandkvæðum háð.[38]

Efnahagskerfi Vatíkansins er einstakt í heiminum. Allar tekjur þess koma frá rómversk-kaþólskum kirkjum um allan heim, sölu á minjagripum og frímerkjum eða aðgöngu að söfnum Vatíkansins. Þar er enginn einkageiri og því sem næst allir vinna fyrir sömu stofnunina, Páfagarð. Þrátt fyrir þetta óvenjulega kerfi eru aðstæður íbúa mjög góðar og jafnvel betri en íbúa Rómar sjálfrar.

Lýðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Íbúasamsetning Vatíkansins er frábrugðin flestum öðrum ríkjum heims vegna þess að allir íbúarnir búa þar vegna starfs síns. Meiripartur íbúanna er klerkar, sökum þess að þar eru höfuðstöðvar stærsta trúfélags heims, allt frá kardinálum til presta og yfir í óbreytta munka og nunnur. Flestir tala latínu starfs síns vegna, en koma frá hinum ýmsu stöðum heims og eiga því önnur móðurmál sem þeir nota dags daglega. Reyndar er stór hluti íbúanna af ítölsku bergi brotinn, en Ítalir hafa alltaf átt sterk ítök í æðstu stofnunum rómversk-kaþólsku kirkjunnar af sögulegum ástæðum. Flestir þeir sem búa í Vatíkaninu og eru ekki af klerkastétt, eru svissnesku verðirnir. Það er her hins sjálfstæða ríkis Vatíkansins, en allir sem í honum eru eru svissneskir. Af þeim sökum tala þeir þýsku sín á milli. Allir íbúar Vatíkansins eru, eðli málsins samkvæmt, rómversk-kaþólskir.

Merkilegir staðir

[breyta | breyta frumkóða]
Séð yfir Péturstorgið, aðalaðkomu Vatíkansins.

Vatikanið var lengi vel ein helsta valdamiðstöð Evrópu og þar eru margar merkilegar stofnanir og byggingar. Þar er Basilíka heilags Péturs, sem er oft talin fallegasta kirkja heims, en óumdeilanlega sú stærsta. Kirkja sem byggð var árið 326 var fyrsta byggingin á því svæði sem í dag er Vatikanið. Sú sem stendur þar í dag var byggð á miðri 16. öld og þá voru veggir og loft skreytt með málverkum sem í dag eru mörg hver talin meðal þeirra allra fegurstu. Sixtínska kapellan var byggð á 15. öld að tilskipun Sixtusar Páfa IV og hefur sama grunnform og Musteri Salomóns. Hún er líka þakin freskum, þeirra frægust Sköpun Adams. Vatikanið rekur listasöfn, því listaverk Páfastóls eru ekki einungis þau sem á veggjunum eru, heldur líka margar styttur, málverk og fleiri stök verk. Þessi söfn eru talin eiga mörg fegurstu listaverka Evrópu sem páfar hafa í gegnum tíðina sankað að sér. Auk þess hýsa þau ýmsa muni tengda sögu kristni, kaþólsku og einkum Páfastólnum sjálfum, svo sem fyrrverandi hásæti páfa. Þar að auki er í Vatikaninu eitt merkasta skjalasafn heims, Hið leynda skjalasafn Vatikansins. Þar eru geymd flest skjöl sem Páfastóll hefur látið frá sér eða sankað að sér. 1922 var ákveðið að opna hluta þessa annars leynda skjalasafns fyrir vísindamönnum til rannsókna. Í páfatíð sinni opnaði Jóhannes Páll páfi II. fleiri hluta safnsins og meðal annars þá hluta þess sem snúa að Heimsstyrjöldinni síðari. Enn er þó mikill hluti þessa skjalasafns algjörlega leyndur óviðkomandi og eru uppi margar samsæriskenningar um hvað þar sé geymt.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Vatican City“. Encyclopedia Britannica. Afrit af uppruna á 18. mars 2015. Sótt 18 maí 2021.
  2. „Vatican country profile“. BBC News (bresk enska). 17 nóvember 2018. Afrit af uppruna á 25 ágúst 2018. Sótt 24 ágúst 2018.
  3. 3,0 3,1 „Text of the Lateran Treaty of 1929“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 febrúar 2021. Sótt 3 ágúst 2020.
  4. „Population“ (ítalska). Vatican City State. 31. desember 2024.
  5. „Europe :: Holy See (Vatican City) — The World Factbook – Central Intelligence Agency“. cia.gov. 22. september 2021. Afrit af uppruna á 26 janúar 2022. Sótt 25 janúar 2021.
  6. „Holy See (Vatican City)“. CIA—The World Factbook. 22. september 2021. Afrit af uppruna á 26 janúar 2022. Sótt 25 janúar 2021.
  7. „Vatican City“. Catholic-Pages.com. Afrit af uppruna á 22. mars 2019. Sótt 12 ágúst 2013.
  8. „Catholics increasing worldwide, reaching 1.329 billion“. AsiaNews. 26. mars 2020. Afrit af uppruna á 14 apríl 2021. Sótt 9. mars 2021.
  9. Brynja Tomer (1988). „Söfnin í Vatíkaninu - Þúsund salir fullir af fegurð“. Lesbók Morgunblaðsins. 63 (32): 10–11.
  10. Tim Parker (7. nóvember 2024). „The Secret Finances of the Vatican Economy“. Investopedia.
  11. Richardson, L. (október 1992). New Topographical Dictionary of Ancient Rome. Baltimore: Johns Hopkins University Press. bls. 405. ISBN 0-8018-4300-6.
  12. „Apostolic Constitution“ (latína). Afrit af uppruna á 12. september 2020. Sótt 3 ágúst 2020.
  13. Pope Francis (8. september 2014). „Letter to John Cardinal Lajolo“ (latína). The Vatican. Afrit af uppruna á 18 apríl 2015. Sótt 28 maí 2015.
  14. 14,0 14,1 Liverani 2016, bls. 21
  15. Petacco 2016, bls. 11
  16. „Damien Martin, "Wine and Drunkenness in Roman Society" (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 18. september 2014. Sótt 27 ágúst 2013.
  17. Tacitus, The Histories, II, 93, translation by Clifford H. Moore (The Loeb Classical Library, first printed 1925)
  18. Lanciani, Rodolfo (1892). Pagan and Christian Rome Houghton, Mifflin.
  19. „Vatican City in the Past“. Afrit af uppruna á 28 maí 2019. Sótt 3 ágúst 2020.
  20. Pliníus eldri, Náttúrusaga Pliníusar XVI.76.
  21. „St. Peter, Prince of the Apostles“. Catholic Encyclopedia. Afrit af uppruna á 15. september 2019. Sótt 12 ágúst 2013.
  22. Pero Tafur (1926). E. Denison Ross og Eileen Power (ritstjóri). „Travels and Adventures“. The Broadway Travellers. New York, London: Harper & brothers. Afrit af upprunalegu geymt þann 29 júní 2011.
  23. „Altar dedicated to Cybele and Attis“. Vatican Museums. Afrit af uppruna á 24 janúar 2012. Sótt 26 ágúst 2013.
  24. Fred S. Kleiner (2012). Gardner's Art through the Ages. Cengage Learning. bls. 126. ISBN 978-1-13395479-8. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. september 2015.
  25. „Vatican“. Columbia Encyclopedia. 2001–2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 7 febrúar 2006.
  26. „Questione romana“. Treccani.it. Istituto della Enciclopedia Italiana.
  27. „The Roman Question: The Pope vs. the New Nation of Italy“. TheCollector (enska). 15 janúar 2024. Sótt 21 janúar 2024.
  28. Wetterau, Bruce (1994). World History: A Dictionary of Important People, Places, and Events, from Ancient Times to the Present. New York: Henry Holt & Co. ISBN 978-0-8050-2350-3.
  29. „Preamble of the Lateran Treaty“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10 október 2017. Sótt 21 júlí 2014.
  30. 30,0 30,1 30,2 „Patti lateranensi, 11 febbraio 1929 – Segreteria di Stato, card. Pietro Gasparri“. The Holy See. Afrit af uppruna á 19 janúar 2021. Sótt 5 apríl 2020.
  31. Ekpo, Anthony (2024). The Roman Curia: History, Theology, and Organization (enska). Washington, DC: Georgetown University Press. bls. 8. ISBN 978-1-64712-436-6.
  32. „Lateran Treaty“. Encyclopedia Britannica (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 18. mars 2025. Sótt 25. mars 2025.
  33. „Rome“. Ushmm.org. Afrit af uppruna á 15. desember 2013. Sótt 12. desember 2013.
  34. 34,0 34,1 34,2 34,3 34,4 34,5 Chadwick, Owen (1988). Britain and the Vatican During the Second World War. Cambridge: Cambridge University Press. ISBN 978-0-521-36825-4.
  35. „Vatican City Today“. Vatican City Government. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. desember 2007. Sótt 28 nóvember 2007.
  36. 36,0 36,1 Thavis, John (2013). The Vatican Diaries: A Behind-the-Scenes Look at the Power, Personalities and Politics at the Heart of the Catholic Church. NY: Viking. bls. 121–122. ISBN 978-0-670-02671-5.
  37. Zenit (17. apríl 2005). „John Paul II's Legacy in Diplomacy“. EWTN Global Catholic Network.
  38. Morss, John R. (nóvember 2015). „The International Legal Status of the Vatican/Holy See Complex“. European Journal of International Law. 26 (4). OUP: 927. doi:10.1093/ejil/chv062. hdl:10536/DRO/DU:30081648. ISSN 0938-5428. Afrit af uppruna á 22 janúar 2021. Sótt 6 febrúar 2021.