Fara í innihald

Spjall:Gregoríska tímatalið

Innihald síðu er ekki stutt á öðrum tungumálum.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Það munu vera algjörar nýjungar að tala um Júlíska og Gregoríska tímatalið. Hingað til hefur það heitið Júlíanska og Gregoríanska tímatalið og get ég ekki séð ástæðu til að breyta því. --Moi 09:57, 18 sep 2004 (UTC)

Sjá nánar: [1] en þar segir m. a. „Niðurstaða sú snerti breytinguna sem varð þegar nýi stíll (gregoríanska tímatalið) tók við af gamla stíl (júlíanska tímatalinu). “
Þetta er úr greininni Fingrarím eftir Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing, sem verið hefur ritstjóri Almanaksins í áratugi. Leturbreyting mín. --Moi 10:07, 18 sep 2004 (UTC)

Ég hef fundið dæmi um bæði gregoríanska og gregoríska í orðabókum & alfræðiritum, og eins og sést í pósti mínum til Íslenskrar Málstöðvar, fyrir finnast bæði í íslensku máli. Gregoríska er hinsvegar málfræðilega rétt, en gregoríanska ekki, vegna þess að þar er búið að troða ensku viðskeyti inn í nafnið ásamt íslenska. Það ættu flestir að átta sig á því að það er nokkuð fáránlegt að að þýða latneska greinin í enskan og skeyta svo íslenskum greini í viðbót aftan á. Það er auðvita eðlilegast að breyta (n)us ska beint úr latínu. Þú getur ímyndað þér hversu fáranlegt það er að tala um Evklíðianska rúmfræði (sbr. Euclidean geometry). --Friðrik Bragi Dýrfjörð 11:36, 18 sep 2004 (UTC)
Þakka þér fyrir Friðrik, ég er ánægður með þín vinnubrögð í þessu og svarið. En bara þess utan: Hér er alls ekki um greini að ræða, hvorki enskan né íslenskan, þetta eru beygingarendingar. :-) Kveðja, --Moi 17:43, 18 sep 2004 (UTC)
Æj, ég gleymdi víst að breyta því allstaðar í viðskeyti, ég var byrjaður á því en virðist hafa orðið eitthvað utan við mig, afsakið. --Friðrik Bragi Dýrfjörð 17:55, 18 sep 2004 (UTC)
Nokkuð góður punktur að íslenska endingarnar, þótt maður þurfi aðeins að venjast því. Hins vegar finnst mér hæpið, að þetta hafi nokkuð með ensku að gera, enda ekki nema rúmir 6 áratugir síðan hún fór að ríða húsum á Íslandi fyrir alvöru. Íslendingar tóku G.T. upp samtímis Dönum (den gregorianske kalender) og lútherskum Þjóðverjum (der Gregorianische Kalender), þannig að þetta hlýtur að vera dæmigerð dönsk þýskusletta, upphaflega soðin upp úr latínu og/eða frönsku. --EinarBP 22:17, 18 sep 2004 (UTC)
Og svona svo það fáist á hreint verð ég ekki í því að breyta þessu þar sem sauðkindin er dauð og ekki er séð fram á það að henni verði ýtt í gang í nánustu framtíð. --Ævar Arnfjörð Bjarmason 22:20, 18 sep 2004 (UTC)
Eins og Friðrik bendir á er eðlilegast að bæta endingunni -ska við íslenska mynd nafnsins sem tímatalið er kennt við. Þar sem sú nafnmynd er „Gregor“ verður heitið því „Gregorska tímatalið“. Birnuson (spjall) 8. október 2013 kl. 12:26 (UTC)[svara]
Hvaðan hefurðu það að "Gregor" sé "íslensk" mynd af Gregoríus? "Gregorskur" kemur ekki fyrir í beygingalýsingu íslensks nútímamáls og ekki í ritmálssafni Orðabókar Háskólans (en "Gregorískur" gerir það). "Gregorska tímatalið" kemur auk þess aðeins tvisvar fyrir í Google-leit (en "Gregoríska tímatalið" mörg þúsund sinnum). --Akigka (spjall) 8. október 2013 kl. 13:32 (UTC)[svara]
Ég tek undir með Akigka. Auk þess vil ég benda á að við vefleit kemur „Gregorska tímatalið“ aðeins fyrir tvisvar og það í Fréttablaðinu en engum ritum. Því vil ég leggja til að þessu sé breitt til baka og að tímatalið sé nefnt eins og það er almennt nefnt og ég tel að um það hafi skapast málhefð og ég get ekki séð að það sé okkar að breyta málhefðum af því að einhverjum finnst að önnur stafsetning sé „réttari“. Bragi H (spjall) 8. október 2013 kl. 13:47 (UTC)[svara]
Þessu til viðbótar, eigum við þá að breyta öllum þeim afleyddu orðum og hugtökum sem leidd eru af Gregoríus? Samanber stafsetningaorðabókina: „gregorískur lo. gregorísk; gregorískt -ari, -astur gregorískur söngur; gregoríska kirkjan; gregoríska tímatalið“? Þær orðabækur sem ég er búin að fletta í gefa bara upp að nafnið „Gregor“ sé íslenskt mannsnafn, en Gregoríus eru allir páfarnir sem dæmi. Á hverju eigum við að byggja ef ekki hefðinni og öðrum ritum? Bragi H (spjall) 8. október 2013 kl. 14:19 (UTC)[svara]
Fyrst um „Gregor“. Páfar, sem borið hafa nafnið Gregorius, hafa ýmist verið kallaðir Gregoríus eða Gregor á Íslandi. Fræðimenn nota þó að jafnaði „Gregor“. Nefna má heiti ýmissa miðaldarita eins og þau eru höfð í fræðilegum útgáfum frá síðustu 150 árum: Gregors saga (útg. Unger 1877), Viðræður Gregors (útg. Þorvaldur Bjarnarson 1878) og Ævi og viðræður heilags Gregors, brot (útg. Hreinn Benediktsson 1963). Einnig má benda á nýleg dæmi úr ritgerðum annarra fræðimanna: „…þegar Gregor páfi VII. gaf út hið fræga plagg Dictatus papae…“ (úr grein Sigurðar Líndals fv. lagaprófessors „Um lagasetningavald dómstóla“ sem birtist í Tímariti lögfræðinga, 52. árgangur 2002, 2. tölubl., bls. 103) og „…hann hafi farið á fund páfa sem þá var Gregor IX…“ (úr grein Helga Þorlákssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, „Nikulás og Sturla í Róm“ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 26. júlí 2003, bls. 8). Dæmi um hitt má vissulega finna líka en ég hygg að „Gregor“ hafi vinninginn þegar litið er til fræðilegra skrifa undanfarna áratugi og þar með virðist einsýnt að nota þá mynd nafnsins einnig í Wikipedia. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 01:54 (UTC)[svara]
Þá um „gregorskur“. Rökin fyrir því að nota þá orðmynd eru í fyrsta lagi að rétt sé að gæta samræmis og leiða lýsingarorðið af þeirri mynd eiginnafnsins sem ákveðið hefur verið að nota (Gregor -> gregorskur). Mótrökin eru auðvitað að hefð sé fyrir öðru. Ríkasta hefðin virðist hins vegar lengi hafa verið (jafnvel hjá þeim sem notuðu nafnmyndina Gregor) að tala um „gregoríanska tímatalið“ en hér á síðunni hefur þeirri orðanotkun engu að síður verið hafnað. Þá er rangt að „gregorskur“ komi ekki fyrir í ritmálssafni Orðabókar Háskólans, því að þar hefur orðmyndunum „gregorskur“ og „gregórskur“ verið slegið saman í eina færslu. Dæmin, sem þar eru tilgreind, eru frá Halldóri Laxness („gregórskur“) og Guðmundi Finnbogasyni („gregorskur“) en Guðmundur var, eins og segir á Vísindavefnum, „einn fjölhæfasti menntamaður Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar“ og „afkastamikill þýðandi fræðirita og ötull orðasmiður“ og að margra dómi einn málhagasti maður á Íslandi. Úr því að niðurstöður frá Google eru nefndar er rétt að benda á að flestar þær þúsundir niðurstaðna sem taldar eru upp fyrir „gregoríska tímatalið“ eru tvítekningar (margtekningar?) af glosbe.com. Að þeim slepptum eru niðurstöðurnar aðeins um 100, þar á meðal af ýmsum vafasömum síðum með heiti á borð við „xxxpussy.datingmakeup“ og „whatgetsmehot“. Þær styðja því ekki allar notkun orðmyndarinnar „gregorískur“. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 02:26 (UTC)[svara]
Breytingin, sem ég er að tala fyrir, er hliðstæð þeirri sem varð þegar hér var horfið frá því að tala um „gregoríanska tímatalið“. Þá taldist réttara að nota „gregoríska tímatalið“ þó að hefð væri fyrir hinu, sjá ofar í þessari umræðu (á timarit.is fást 23 niðurstöður fyrir „gregoríanska tímatalið“ en 11 niðurstöður fyrir „gregoríska tímatalið“). En þetta er ekkert sem mér „finnst“ heldur er það byggt á rökum rétt eins og breytingin úr „gregoríanskur“ í „gregorskur“. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 02:36 (UTC)[svara]
Færslur í Stafsetningarorðabókinni vega að mínu viti ekki þungt í samanburði við það sem ég hef talið upp hér á undan. Sömuleiðis er engin þörf á að „breyta“ því sem þar er nefnt. Fyrsta dæmið í færslunni er „gregorískur söngur“ en sú tónlistarhefð er nú almennt nefnd gregorsöngur eða gregorssöngur (stundum með upphafsstaf) eins og sjá má bæði á google.com og timarit.is. „Gregoríska kirkjan“ kemur hreinlega ekki fyrir á Google og aðeins einu sinni á timarit.is. Síðasta dæmið, „gregoríska tímatalið“, er það sem hér er til umræðu. Það er sem sagt ekki ríkjandi hefð að tala um „gregorískan söng“ og að því er virðist engin hefð að tala um „gregorísku kirkjuna“. Þegar kemur að öllum páfunum sem heita Gregor virðast íslenskir orðabókamenn hreinlega ekki hafa fylgst með þeirri venju sem var að mótast að þessu leyti, að minnsta kosti meðal fræðimanna. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 02:57 (UTC)[svara]
Orðabækur hljóta þó að vega þungt ef vafi leikur á hvernig eitthvert tiltekið lýsingarorð, sem við notum hér, lítur út. Að mínu viti vegur einmitt ekki þungt í samanburði við það sem í orðabókum stendur að stunda eigin rannsókn á tíðni orðmynda í fræðilegum skrifum undanfarna áratugi, eins og þú ert að gera. Því jafnvel þótt þú hefðir eitthvað til þíns máls um það mætti samt færa rök fyrir því að það sé eins konar frumrannsókn, sem er ekki leyfð. Við notum það orðfæri sem almennt tíðkast og ef vafi leikur á hvaða orðfæri það er, þá flettum við í orðabók frekar en að rannsaka málið sjálf. Í Íslenskri orðabók 4. útg. sem Mörður Árnason ritstýrði (Edda, 2007) eru einu orðmyndirnar sem gefnar eru „gregorískur“ og „gregoríanskur“. Tekið er dæmi um „gregoríska tímatalið“ og sagt kennt við Gregoríus páfa (1. eða 13.) Í sömu orðabók eru líka „Gregoríusmessa“ og „gregorssöngur“. Stafsetningarorðabókin sem Dóra Hafsteinsdóttir ritstýrði og JPV gaf út (2006) hefur bæði „gregoríanskur“ og „gregorískur“ en ekki „gregorskur“ — alveg eins og Íslensk Orðabók sem minnst er á að ofan. Bæði orðin eru stigbreytt og dæmi tekin með orðunum „söngur“, „kirkjan“ og „tímatalið“. Orðið „gregorssöngur“ er líka í bókinni en ekki, eins og áður sagði, „gregorskur“. Nú eru tvær útgefnar heimildir — orðabók og stafsetningarorðabók — búnar að segja okkur það sama. Vísindavefurinn virðist enn fremur nota orðmyndirnar „gregorískur“ eða „gregoríanskur“ en ekki „gregorskur“. Að lokum duga ekki rökin sem þú færir fram gegn orðmyndinni „gregorískur“ af því að hún er mynduð nákvæmlega eins en af latneskri mynd nafnsins (sem er jú opinbert heiti páfans í embætti). Myndun þeirrar orðmyndar er þess vegna alveg jafn rökrétt eins og sú sem þú leggur til. Ég legg til að við breytum aftur í fyrra horf og notum „gregorískur“. Eftir sem áður mætti minnast á allar orðmyndir í greininni og hafa tilvísanir. --Cessator (spjall) 9. október 2013 kl. 09:15 (UTC)[svara]
Við þetta er að bæta að ef þú vilt skoða tíðni orðmynda, þá er auðvitað Íslensk textasafn Árnastofnunar prýðilegt tól. Á vefsíðu textasafnsins segir: „Í textasafninu eru gamlir og nýir textar af ýmsum toga, flestir þó útgefnir um 1985 eða síðar.“ Þar ætti því að leita til að sjá notkun síðustu áratugina. Vefaðgangur er hér: http://corpus.arnastofnun.is/ Í stuttu máli er hægt að finna notkun orðanna „gregorískur“ og „gregoríanskur“ en ekki „gregorskur“. --Cessator (spjall) 9. október 2013 kl. 09:28 (UTC)[svara]
Tek undir með Cessator og legg til að þessu sé breitt til baka. Finnst þá einnig að greinum um viðkomandi páfa, sem hefur líka verið breitt, verði breitt til baka í Gregoríus x en ekki Gregor, eins verið er að breyta í. Bragi H (spjall) 9. október 2013 kl. 09:32 (UTC)[svara]
Bestu þakkir fyrir þessi svör. Ég vildi fyrst og fremst koma því á framfæri að samræmi þyrfti að vera milli þeirrar útgáfu af nafni páfans sem notuð er og lýsingarorðsins sem af því er dregið. „Gregorískur“ er auðvitað rétt myndað af Gregoríus en ef við föllumst á að fremur eigi að rita Gregor verður lýsingarorðið að vera „gregorskur“ (með sömu rökum og notuð voru þegar „gregoríanskur“ var talið ótækt). Þetta snýst því í mínum huga um það hvort sé réttara, Gregor eða Gregoríus. Vera má að ég hafi farið nærri frumrannsókn í athugun minni á því, en það virtist vera nauðsynlegt til þess að sýna hvernig orðanotkunin væri meðal þeirra sem telja má að séu bestu heimildarmennirnir. (Ef við tökum hins vegar mið af einhverju á borð við íslenskt textasafn Árnastofnunar verður niðurstaðan sú að rita beri „gregoríanskur“ því að það virðist vera almennt notað í textunum sem þar hafa verið orðteknir.) Ég kalla því eftir umræðu um tvennt: 1) hvort rita beri „Gregoríus“ gegn þeirri hefð sem mótast hefur meðal fræðimanna undanfarin 150 ár og 2) hvort rita beri „gregorískur“ óháð því hvor nafnmyndin er notuð. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 10:54 (UTC)[svara]
Hvað er annars venja að gera þegar álitamál af þessu tagi koma upp? Er leitað sérfræðiálits? Hér fyrir ofan er vísað til pósts sem sendur hafi verið Íslenskri málstöð en því efni hefur verið eytt. Birnuson (spjall) 9. október 2013 kl. 10:58 (UTC)[svara]
Þessi samræða vekur vissulega upp ýmsar spurningar. Fyrir mitt leyti hefði ég haldið réttast að nota latneska mynd nafnsins enda opinbert heiti páfa í embætti. En jafnvel þótt stýfð nafnmynd verði fyrir valinu, hvers vegna skyldi þurfa í orðasambandi að nota í allt annarri flettu (þ.e. um tímatalið) lýsingarorð myndað af þeirri sömu nafnmynd? Því jafnvel þótt Gregor verði flettuheitið á greininni um manninn er ekki þar með sagt að latneska útgáfan Gregorius hafi verið dæmd óhæfa — enda ætti hún samt að koma fram í greininni um manninn þótt stýfða nafnmyndin verði flettuheitið. Svolítið öðru máli gegnir um orðmyndina „gregoríanskur“. Hún er nefnilega mynduð af lýsingarorði sem er myndað af nafninu. Það er að segja, latneska lýsingarorðið gregorianus er myndað af nafninu Gregorius og getur af sér endinguna -ian í ensku. Það er skrítið að mynda íslenskt lýsingarorð af latneska lýsingarorðinu frekar en mannsnafninu sjálfu.
Ég er ekki viss um að það sé beint til nein venja um þetta. Ef þú vilt leita til sérfræðings, þá ættu þeir sem hér hafa tekið til máls að sammælast um hvers álits skal leitað, þ.e. hver sérfræðingurinn á að vera; og sammælast líka um fyrirspurnina. Hún gæti t.d. verið svona, svo að svarandi hafi öll gögn í höndunum: „Lýsingarorðin „gregoríanskur“, „gregorískur“ og „gregorskur“ eru öll notuð til að kenna ákveðið tímatal við ákveðinn mann. Einungis fyrstu tvær orðmyndirnar eru í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005) en einungis önnur myndin (þ.e. „gregorískur“) er í Orðabók Menningarsjóðs (Árni Böðvarsson ritstj., 2. útg. 1983). Fyrsta orðmyndin virðist mynduð af latnesku lýsingarorði („gregorianus“) með íslenskri lýsingarorðaendingu en hinar tvær eins og hver önnur íslensk lýsingarorð, annars vegar af latensku nafni páfans, Gregorius, og hins vegar af stýfðri útgáfu nafnsins, þ.e. Gregor. Er einhver réttari en önnur og ef svo hver þeirra og hvers vegna?“ --Cessator (spjall) 9. október 2013 kl. 22:13 (UTC)[svara]
Sú leið að nota opinbert latneskt heiti páfa hefur almennt ekki verið farin. Þvert á móti er hefð fyrir því að nota íslenska samsvörun hvers nafns. Við tölum um Frans páfa (en ekki Franciscus), Benedikt 16. páfa (en ekki Benedictus), Jóhannes Pál 1. og 2. páfa (en ekki Ioannes Paulus) o.s.frv., sjá einnig íslenska wp-listann yfir páfa. Yfirleitt er notuð hefðbundin íslensk mynd nafnsins ef hún er til, en jafnvel þegar svo er ekki er latnesku endingunni -us iðulega sleppt. Algengara hefur til að mynda verið að tala um Úrban páfa og Hadrían páfa en Úrbanus og Hadríanus. Ef til vill mætti kalla þetta „stýfðar“ nafnmyndir en fyrst og fremst er litið á þær sem íslenskan rithátt hvers nafns um sig.
Ég er sammála því að ritháttur lýsingarorðsins, sem tengist nafninu Gregor(íus) er sjálfstætt úrlausnarefni. Jafnvel þótt samþykkt verði að nefna páfana Gregor fremur en Gregoríus hér á síðunum kann að vera að lýsingarorðið „gregorískur“ þyki áfram heppilegast.
Eftir að hafa skoðað listann yfir páfa virðist mér raunar sem helsta álitamálið sé einmitt hvernig hafa skuli á íslensku nafn þeirra páfa sem nefndust Gregorius á latínu. Þessi óvissa virðist hafa verið uppi lengi. Til dæmis er sérkennilegt að sjá eftirfarandi í Íslenskri orðsifjabók: „Gregoríus k. karlmannsnafn, sbr. páfaheitið Gregor (hinn mikli) og Gregoríusmessa kv., 12. mars.“ Það er annað eins og þetta sem veldur því að mér þætti heppilegast að fá úrskurð eða að minnsta kosti álit sérfræðings. Ég veit þó ekki hver hann ætti að vera. Ber að leita til sérfræðings í íslensku máli eða málsögu, kirkjusagnfræðings eða nafnfræðings? Mér dettur í hug að Akigka hafi skoðun á þessu (hann virðist hafa sett saman íslensku útgáfuna af páfalistanum). Fyrirspurn til sérfræðings þyrfti að snúast jafnt um páfanafnið sem lýsingarorðið sem tengist því eða er af því dregið. Þar með gæti verið nauðsynlegt að senda tvær fyrirspurnir, aðra um nafnið og hina um lýsingarorðið, því að hugsanlega teljast þær falla undir tvö mismunandi sérfræðisvið. Birnuson (spjall) 10. október 2013 kl. 13:39 (UTC)[svara]
Þetta er ekki alveg einfalt mál; Ég er sammála því í prinsippinu að hefð sé fyrir því að nota íslensk nöfn ráðamanna þegar það er hægt en íslenska nöfn þeirra annars (s.s. skrifa með íslenskum rithætti) og ef það er ekki hægt þá nota einhverja handhæga umritun eða upprunalega mynd ef nafnið er ritað með latínuletri. Þetta er þó líka háð málvenju, sbr. Ágústus keisari (ekki *Ágúst keisari). Ég er bara ekki viss hvort við getum sagt að Gregor sé íslenskt nafn fremur en Gregoríus, þótt það fyrrnefnda komi fyrir í mannanafnaskrá en það síðara ekki. Það eru mörg erlend nöfn í mannanafnaskrá sem eiga sér litla eða enga hefð á Íslandi og það virðist einmitt gilda um Gregor (kemur hvergi fyrir í eldri manntölum - Gregoríus kemur fyrir en bara einu sinni sem millinafn). Gregoríus er auk þess latnesk útgáfa af grísku nafni, Gregoríos. Ég er því ekki viss um hvert tilkall nafnið Gregor hefur til þess að teljast "íslensk útgáfa af Gregorius" og því hvort "réttara" sé að rita nafn páfans þannig fremur en með íslensku umrituninni á latneska nafninu: Gregoríus. Sem heiti á páfanum kemur Gregoríus fyrir 72 sinnum á bækur.is (hafa í huga að OCRaðir textar þar takmarkast við rit prentuð með latneskri skrift), langoftast á 3. áratug 19. aldar, en Gregor kemur fyrir 39 sinnum, langoftast á 6. áratug 19. aldar. Ef við berum saman "Gregor páfi" og "Gregoríus páfi" á Tímarit.is þá er heldur ekki afgerandi munur á því þar (fyrra kemur 48 sinnum, hitt 54 sinnum). Lýsingarorðið er hins vegar sérstakt viðfangsefni: "gregoríanskur/gregoríanska/gregoríönskum" (sem málnefndin segir að sé villa, þótt hefð sé komin fyrir því) kemur fyrir 159 sinnum á Tímarit.is, "gregorískur/gregoríska/gregorískum" kemur fyrir 120 sinnum en "gregorskur/gregorska/gregorskum" aðeins 43 sinnum og svo til öll dæmin eru frá allra síðustu árum. Þetta virðist því vera lýsingarorð sem nýlega hefur verið tekið upp (af Tímarit.is að dæma). --Akigka (spjall) 10. október 2013 kl. 14:16 (UTC)[svara]
Þetta lýsir stöðunni vel. Það virðist vera meiri óvissa um hvernig hafa skuli þetta nafn á íslensku en nokkurt annað nafn páfa. Það flækir enn málið að sumir virðast rita „Gregór“, „gregórískur“ o.s.frv. fremur en „Gregor“, „gregórískur“. Mikilvægt er líka að lýsingarorðið „gregorskur/gregórskur“ virðist ekki hafa farið að tíðkast fyrr en um miðja 20. öld, en nafnmyndin „Gregor“ er að minnsta kosti 100 árum eldri í íslenskum ritum. Ég hef ekki enn áttað mig á því til hvaða sérfræðings best er að leita til þess að fá einhverjar leiðbeiningar um þetta. Er vænlegast að byrja á Íslenskri málstöð? Birnuson (spjall) 11. október 2013 kl. 14:18 (UTC)[svara]
Ég ætla þá að spyrjast fyrir um hvaða sérfræðingar gætu komið til greina og huga að því að semja fyrirspurn. Birnuson (spjall) 15. október 2013 kl. 00:13 (UTC)[svara]
Íslensk málstöð? --Cessator (spjall) 15. október 2013 kl. 01:29 (UTC)[svara]
Já, aðrar tillögur hafa ekki komið fram. Ég geri ráð fyrir að senda fyrirspurnina þangað þegar hún er tilbúin. Birnuson (spjall) 16. október 2013 kl. 13:10 (UTC)[svara]
Ég hef loksins barið saman nefnda fyrirspurn, sjá hér á eftir. Hafið þið athugasemdir við þetta?
„Góðan dag.
Þessi fyrirspurn er send vegna álitamáls sem varðar annars vegar páfaheitið Gregorius og hvernig það skuli haft á íslensku og hins vegar lýsingarorðið sem dregið er af því.
Venja er að nota í hverju landi þá mynd hvers páfaheitis sem algengust er á þeim slóðum. Þannig tala Íslendingar um Jóhannes Pál páfa og Frans páfa, svo dæmi sé tekið. Þetta á einnig við um ýmis sjaldgæfari nöfn páfa, til dæmis er oftar ritað „Úrban páfi“ en „Úrbanus páfi“. Þegar kemur að þeim páfum sem borið hafa nafnið Gregorius bregður aftur á móti svo við að engin venja virðist allsráðandi á Íslandi. Hvorttveggja er algengt að sagt sé „Gregoríus páfi“ og „Gregor páfi“. Til vitnis um þetta er eftirtalin fletta úr Íslenskri orðsifjabók: „Gregoríus k. karlmannsnafn, sbr. páfaheitið Gregor (hinn mikli) og Gregoríusmessa kv., 12. mars.“ Lausleg athugun á ritum, sem komið hafa út undanfarin 150 ár, virðist benda til þess að nafnmyndin „Gregor“ hafi orðið ofan á meðal íslenskra fræðimanna. Í almennum textum er hins vegar enga ákveðna tilhneigingu að sjá.
—Fyrri spurning mín verður því á þessa leið: Hvernig er heppilegast að rita latneska páfaheitið Gregorius í íslenskum texta?
Síðara álitamálið varðar lýsingarorðið sem dregið er af nafninu Gregor(íus). Algengast hefur verið að nota latneska lýsingarorðið með íslenskri lýsingarorðsendingu í myndinni gregoríanskur og tala til dæmis um „gregoríanska tímatalið“. Þetta þykir hins vegar ekki í samræmi við almenna málvöndun og því hefur orðmyndin gregorískur verið tekin upp í staðinn. Báðar orðmyndirnar er þó að finna í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005). Lýsingarorðið gregorískur virðist eðlilega myndað af nafnmyndinni Gregoríus, en sé fremur notast við nafnmyndina Gregor mætti ætla að lýsingarorðið ætti að vera gregorskur.
—Síðari spurning mín er því þessi: Ber að nota lýsingarorðið gregorskur verði niðurstaðan sú að nota nafnmyndina Gregor sem samsvörun latneska nafnsins Gregorius eða samræmist það reglum íslensks máls að segja og rita gregorískur enda þótt nafnmyndin Gregor sé notuð? (Ég tel víst að gregorískur sé rétt myndað af Gregoríus og að ekki sé úrskurðar þörf um það.)
Með vinsemd og virðingu,“ Birnuson (spjall) 5. nóvember 2013 kl. 12:46 (UTC)[svara]
Þetta er kannski svollítið leiðandi fyrirspurn. Þú byrjar á að gefa þeim forsendur („Venja er að nota í hverju landi [...]“) en það ætti kannski að vera niðurstaða sem þeir komast að (eða komast ekki að) og talar um „lauslega athugun á ritum“, sem kannski leiðir til ákveðins svars. Eigum við ekki frekar að leyfa þeim að komast að því hvað stendur í nýlegum ritum? Enda var athugun okkar svo lausleg að á henni verður ekki byggt og aðferðum athugunarinnar ekki lýst svo engar forsendur eru til að mynda sér skoðun á þessari athugun. Þú talar um að gregoríanskur hafi verið algengast (er heimild fyrir því?) en hafi ekki verið „í samræmi við almenna málvöndun“ (sem er gildishlaðið). Þú afþakkar fyrirfram álit á myndun orðmyndarinnar gregorískur af því að hún er rétt mynduð af Gregoríus en spyrð hvort samræmist að nota hana ef páfi skal heita Gregor. En þá er ónefndur möguleikinn á að hugsanlega sé hægt að mynda íslensk lýsingarorð með -ískur en ekki bara -skur; sem sagt gregorískur gæti samræmst Gregor af öðrum ástæðum en þú vilt fá álit á, nefnilega af því að sú orðmynd gæti verið rétt mynduð bæði af Gregoríus og af Gregor. (Íhugaðu t.d. endinguna -ískur í orðum eins og spastískur eða búddískur, marxískur o.s.frv.). Ég lagði til eftirfarandi fyrirspurn í umræðunni fyrir ofan:
„Lýsingarorðin „gregoríanskur“, „gregorískur“ og „gregorskur“ eru öll notuð til að kenna ákveðið tímatal við ákveðinn mann. Einungis fyrstu tvær orðmyndirnar eru í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005) en einungis önnur myndin (þ.e. „gregorískur“) er í Orðabók Menningarsjóðs (Árni Böðvarsson ritstj., 2. útg. 1983). Fyrsta orðmyndin virðist mynduð af latnesku lýsingarorði („gregorianus“) með íslenskri lýsingarorðaendingu en hinar tvær eins og hver önnur íslensk lýsingarorð, annars vegar af latensku nafni páfans, Gregorius, og hins vegar af stýfðri útgáfu nafnsins, þ.e. Gregor. Er einhver réttari en önnur og ef svo hver þeirra og hvers vegna?“
Hér er látið nægja að vísa á algengar og mjög aðgengilegar nýlegar orðabækur en látið vera að tala um lauslegar athuganir, sem erfitt er að taka afstöðu til. Hér er líka sleppt gildishlöðnum lýsingum eins og um málvöndun og einfaldlega spurt hvað viðkomandi telji réttast og hvers vegna (má vera að venja í hverju landi verði þá hluti af niðurstöðunni en alltént óþarfi að ýta þeirri forsendu sérstaklega að álitsgjafanum). Ég legg þess vegna til að við sendum frekar fyrirspurnina mína, a.m.k. ef valið stendur milli þessara tveggja. Kannski mætti líka bæta við tengli á þessa umræðu. --Cessator (spjall) 5. nóvember 2013 kl. 13:20 (UTC)[svara]
Ég hef endurskrifað fyrirspurnina og reynt að hreinsa úr henni allt sem talist gæti leiðandi og gildishlaðið. Gott væri að fá fleiri athugasemdir. Framsetningin ræðst af því að ég tel nauðsynlegt að spyrja um eiginnafnið Gregoríus/Gregor ekki síður en um lýsingarorðið.
„Góðan dag.
Þessi fyrirspurn er send vegna álitamáls sem varðar annars vegar páfaheitið Gregorius og samsvörun þess á íslensku og hins vegar lýsingarorðið sem dregið er af því nafni.
Í íslensku þekkist að heiti páfa sé lagað að tungumálinu á þann hátt að í stað erlendu nafnmyndarinnar komi íslensk samsvörun hennar. Dæmi: „Jóhannes Páll páfi“. Þegar um er að ræða páfaheiti, sem ekki hafa verið notuð á síðari árum, virðist þó engin venja allsráðandi og er þannig ritað „Úrban páfi“ fremur en „Úrbanus páfi“ en einnig „Innósentíus páfi“ fremur en „Innósens páfi“. Þegar kemur að þeim páfum, sem báru nafnið Gregorius, er hvorttveggja algengt, „Gregoríus páfi“ og „Gregor páfi“ og í Íslenskri orðsifjabók stendur: „Gregoríus k. karlmannsnafn, sbr. páfaheitið Gregor (hinn mikli) og Gregoríusmessa kv., 12. mars.“
—Í fyrsta lagi er því spurt: Hvernig þykir réttast að rita latneska páfaheitið Gregorius í íslenskum texta og hvers vegna?
Að auki er spurt hvernig mynda beri lýsingarorð af nafninu Gregor(íus). Orðin gregoríanskur og gregorískur finnast bæði í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005). Loks eru dæmi um lýsingarorðsmyndina gregorskur (gregórskur í ritmálssafni OH).
—Í öðru lagi er því spurt: Hvaða mynd lýsingarorðsins ber að nota? Ræðst sú niðurstaða af því hvort Gregoríus eða Gregor telst réttari nafnmynd á íslensku?
Vísað er til umræðu um þetta efni á slóðinni https://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:Gregorska_tímatalið.
Með vinsemd og virðingu,“ Birnuson (spjall) 6. nóvember 2013 kl. 15:04 (UTC)[svara]
Mér líst sæmilega á seinni hlutann en í fyrri hlutanum læðirðu enn að hugmyndum sem geta verið leiðandi, eins og bara hugtakanotkunin „erlend nafnmynd“ og „íslensk samsvörun“, sem þjónar einungis þeim tilgangi að setja lesandann í þær stellingar að velja aðra hvora sem erlenda nafnmynd og hina sem íslenska. Látum lesandann sjálfan komast að þessari niðurstöðu. Byrjum fyrirspurnina á „Í fyrsta lagi er spurt...“ --Cessator (spjall) 6. nóvember 2013 kl. 23:21 (UTC)[svara]
Kærar þakkir; ég geri þá þriðju atlöguna að þessu. Ég skil að vísu ekki síðustu athugasemd þína (getur farið milli mála að Ioannes Paulus sé erlend nafnmynd og Jóhannes Páll íslensk samsvörun hennar?) en fyrirspurnina má vissulega gera markvissari og einfaldari:
„Góðan dag.
Þessi fyrirspurn er send vegna álitamáls sem varðar annars vegar páfaheitið Gregorius og hins vegar lýsingarorðið sem dregið er af því.
Þegar latnesk páfaheiti eru umrituð í íslenskum textum er ýmist farin sú leið að breyta stafsetningu til samræmis við framburð (dæmi: „Innósentíus 10.“) eða hin að nota breyttar nafnmyndir (dæmi: „Jóhannes Páll 2.“). Þegar kemur að þeim páfum, sem báru nafnið Gregorius, þekkist hvorttveggja—þ.e. ýmist er ritað „Gregoríus páfi“ eða „Gregor páfi“—og í Íslenskri orðsifjabók stendur: „Gregoríus k. karlmannsnafn, sbr. páfaheitið Gregor (hinn mikli) og Gregoríusmessa kv., 12. mars.“
—Fyrri spurning: Hvernig þykir réttast að rita latneska páfaheitið Gregorius í íslenskum texta og hvers vegna?
Þessu til viðbótar er spurt hvernig mynda beri lýsingarorð af nafninu Gregor(íus). Í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005) finnast orðin gregoríanskur og gregorískur. Loks eru dæmi um lýsingarorðsmyndina gregorskur (gregórskur í ritmálssafni OH).
—Síðari spurning: Hvaða mynd lýsingarorðsins telst réttust? Ræðst niðurstaðan af því hvort Gregoríus eða Gregor telst réttari nafnmynd á íslensku?
Vísað er til umræðu um þetta efni á slóðinni https://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:Gregorska_tímatalið.
Með vinsemd og virðingu,“
(Þetta er orðið eintal okkar tveggja. Er það góður siður á Wikipedia að hnippa í menn til þess að kalla eftir framlagi þeirra?) Birnuson (spjall) 7. nóvember 2013 kl. 02:11 (UTC)[svara]
Auðvitað má kalla eftir framlagi annarra. Efast um að einhver tæki það illa upp, leiða það kannski hjá sér ef þeir hafa ekki áhuga. Þetta dæmi með Jóhannes Pál er skýrara en flest sem upp kæmu en í prinsippinu samt eins: heitir núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna þá Jóhannes Kerry á íslensku? Það er ekki sjálfsagt að nöfn einstaklinga séu eða eigi að vera öðruvísi á íslensku. Á íslensku (t.d. í vönduðu íslensku ritmáli) heitir John Kerry einfaldlega John Kerry. Með sömu rökum heitir Ioannes Paulus einfaldlega Ioannes Paulus. En, já, það er til ákveðin hefð að kalla hann samt Jóhannes Pál. Látum það liggja milli hluta í bili. Ef álitsgjafi heldur að það skipti máli má hann hafa orð á því. Í núverandi tillögu þinni er samt enn reynt að steypa umræðuna í ákveðið mót því núna segirðu „er ýmist farin sú leið að breyta stafsetningu til samræmis við framburð ... eða hin að nota breyttar nafnmyndir“. Sem sagt, þú vilt í spurningunni til álitsgjafans útiloka möguleikann á að skrifa nafnið eins og það er á frummálinu, án þess að breyta stafsetningu eða mynd nafnsins að öðru leyti (en þannig förum við að í tilfelli yfirgnæfandi meirihluta erlendra nafna: Barack Obama, John Kerry, Cesar Sanchez, Gabriel García Márquez ...). Af hverju ætti fyrirspurnin að útiloka einhvern möguleika? Ef álitsgjafi telur að þetta komi ekki til greina, lát hann þá segja það. Ég ætla að gera aðra tillögu:
„Góðan dag! Þessi fyrirspurn er send vegna álitamáls sem varðar annars vegar páfaheitið Gregorius og hins vegar lýsingarorðið sem dregið er af því.
Lýsingarorðin „gregoríanskur“, „gregorískur“ og „gregorskur“ eru öll notuð til að kenna ákveðið tímatal við ákveðinn mann. Einungis fyrstu tvær orðmyndirnar eru í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005) en einungis önnur myndin (þ.e. „gregorískur“) er í Orðabók Menningarsjóðs (Árni Böðvarsson ritstj., 2. útg. 1983). Fyrsta orðmyndin virðist mynduð af latnesku lýsingarorði („gregorianus“) með íslenskri lýsingarorðaendingu en hinar tvær eins og hver önnur íslensk lýsingarorð af nafnmyndunum Gregorius og Gregor. Er einhver orðmynd eða einhverjar orðmyndir — lýsingarorðsins eða nafnsins — réttari en önnur og ef svo hver þeirra og hvers vegna?
Vísað er til umræðu um þetta efni á slóðinni https://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:Gregorska_tímatalið.
Með vinsemd og virðingu,“
Nú er spurt sérstaklega um bæði lýsingarorðið og nafnið og beðið um ástæðu fyrir niðurstöðunni (sem nb. er nauðsynlegt að fylgi). Því er sleppt að tala um „stýfða“ mynd nafnsins ef það skyldi talið gildishlaðið og möguleikanum er haldið opnum á að fleiri en ein mynd geti talist jafn rétt. Hvernig líst þér á þetta? --Cessator (spjall) 7. nóvember 2013 kl. 10:20 (UTC)[svara]
Þér finnst þetta vera orðið tveggja manna tal Birnuson, en svo ég bæti mínu áliti inn, þá er ég sammála Cessator. Mér finnst þú vera allt of harður að fá þína skoðun í gegn og þetta bréf/fyrirspurn sé þessvegna svona gildyshlaðið hjá þér. Þú líka breyttir þessu öllu (það er nöfnum og nöfnum á tímatölum) án þess að setja fyrirspurn í spjall sem mér finnst sýna að þú ætlir jafnvel mögulega að fá þína skoðun í gegn með góðu eða illu. Þess vegna hef ég ekki tjáð mig meir en ég hef gert ar sem mér finnst þú vera svo ýtinn og ákveðinn að fá þínu fram en mig langar ekki að taka of mikið þátt í slíku því það verður sjaldnast umræða bara rifrildi. Aftur á móti þá hafur það margoft sýnt sig að Cessator er hugsanlega með eina bestu íslensku kunnáttu okkar sem og mjög diplómatískur og þessvegna hef ég bara fylgst með en ekki tjáð mig. Þetta eru bara mínir 5 aurar, ég er sammála Cessator og „alfarið“ ósammála þér. Bragi H (spjall) 7. nóvember 2013 kl. 10:34 (UTC)[svara]
Mér finnst þessi umræða áhugaverð. Umræða af þessu tagi hefur oft leitt til þess að við höfum "leiðrétt" hluti sem við gerðum áður vitlaust. En nú er eiginlega komið svo mikið efni inn á þessa spjallsíðu að líklega væri best að senda málstöðinni bara einfalda spurningu og vísa svo hingað fyrir restina... :) --Akigka (spjall) 7. nóvember 2013 kl. 11:11 (UTC)[svara]
Það er ánægjulegt að sjá þessi nýjustu framlög til umræðunnar; nú er þetta loks að komast á rekspöl. Núna skil ég líka loksins afstöðu Cessatoris. Ég hafði ekki áttað mig á því að hann teldi rétt að forðast vísun til þeirrar venju að „íslenska“ nafn páfa. Að svo komnu máli er ég býsna sáttur við síðustu tillögu hans að fyrirspurn, nema að því leyti að ég myndi vilja leggja meiri áherslu á að fá svar við því hvernig hafa beri páfaheitið Gregorius á íslensku. Ég hef lítinn tíma núna en reyni að setja inn nýja tillögu seinna í dag (og hafa hana þá sem minnst breytta frá síðustu tillögu Cessatoris). Birnuson (spjall) 7. nóvember 2013 kl. 11:28 (UTC)[svara]
Nú er vonandi aðeins endaspretturinn eftir. Hér er ný tillaga sem er byggð á síðustu tillögu Cessatoris með tveimur breytingum: Ég bætti við vísunum í nafnið Gregorius í íslenskum orðabókum og breytti setningunni sem sagði að lýsingarorðin væru notuð til að kenna ákveðið tímatal við ákveðinn mann. Það er vegna þess að þau eru ekki aðeins notuð um tímatalið (sbr. „gregorískur söngur“ í Stafsetningarorðabókinni) og vegna þess að páfinn, sem kennt er við, getur verið Gregor(íus) 1. (söngurinn), Gregor(íus) 13. (tímatalið) o.s.frv.
„Góðan dag! Þessi fyrirspurn er send vegna álitamáls sem varðar annars vegar páfaheitið Gregorius og hins vegar lýsingarorðið sem dregið er af því.
Gregorius finnst í að minnsta kosti tveimur íslenskum orðabókum. Í Íslensku alfræðiorðabókinni (Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990) má lesa þetta: „Gregoríus páfar: Gregoríus 1. mikli heilagur Gregoríus“ en í Íslenskri orðsifjabók (Orðabók Háskólans, 1989) stendur: „Gregoríus k. karlmannsnafn, sbr. páfaheitið Gregor (hinn mikli) og Gregoríusmessa kv., 12. mars.“ Lýsingarorðin „gregoríanskur“, „gregorískur“ og „gregorskur“ eru öll dregin af páfanafninu sem spurt er um. Einungis fyrstu tvær orðmyndirnar eru í Íslenskri orðabók Marðar Árnasonar (Edda, 4. útg. 2007) og Stafsetningarorðabókinni frá JPV (Dóra Hafsteinsdóttir ritstj., 2005) en einungis önnur myndin (þ.e. „gregorískur“) er í Orðabók Menningarsjóðs (Árni Böðvarsson ritstj., 2. útg. 1983). Fyrsta orðmyndin virðist mynduð af latnesku lýsingarorði („gregorianus“) með íslenskri lýsingarorðaendingu en hinar tvær eins og hver önnur íslensk lýsingarorð af nafnmyndunum Gregorius og Gregor. Er einhver orðmynd eða einhverjar orðmyndir — lýsingarorðsins eða nafnsins — réttari en önnur og ef svo hver þeirra og hvers vegna?
Vísað er til umræðu um þetta efni á slóðinni https://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:Gregorska_tímatalið.
Með vinsemd og virðingu,“ Birnuson (spjall) 14. nóvember 2013 kl. 11:31 (UTC)[svara]
Fyrir mitt leyti er ég sáttur við þetta. --Cessator (spjall) 15. nóvember 2013 kl. 07:07 (UTC)[svara]
Fleiri virðast ekki ætla að lýsa skoðun á þessu svo að fyrirspurnin verður send Íslenskri málstöð eins og hún stendur hér fyrir ofan. Birnuson (spjall) 4. desember 2013 kl. 12:33 (UTC)[svara]
Borist hefur eftirfarandi svar við fyrirspurninni sem send var Íslenskri málstöð:
„Sæll
Ef eitthvert af lýsingarorðunum þremur getur talist réttara eða betra en annað þá má segja
(1) að gregorískur sé betra en gregoríanskur sem lýsingarorð af nafninu Gregoríus -- Ástæðan er sú að -an- er tökuviðskeyti í íslensku og fellur þ.a.l. síður en viðskeytið -sk- að meginlínu íslenskrar málstefnu sem er hreintunguhneigð eins og kunnugt er. Þetta er hliðstætt því að brasilískur er talið betra mál en brasilíanskur og amerískur er talið betra mál en ameríkanskur. Í Gregoríus og Brasilía og Ameríka er -í- sem helst á undan -sk-;
(2) að gregorskur sé betra en gregorískur (eða gregoríanskur) sem lýsingarorð af nafninu Gregor -- Gregorskur er myndað á sama hátt og japanskur af Japan (ekki japanískur) eða katarskur af Katar (ekki katarískur) þar sem ekki er -í- í stofni nafnsins.
Ég sé ekki að gæðamunur sé á Gregoríus og Gregor frá sjónarhóli íslenskrar málfræði.
Hitt er annað mál að lýsingarorðið gregoríanskur á sér ákveðna hefð í íslensku og þá e.t.v. einkum í orðasambandinu gregoríanskt tímatal og þ.a.l. verður það engan veginn kallað rangt mál. Það er ekki rangt mál að nota slík tökuviðskeyti enda þótt meginreglan sé sú að hafa málnotkunina eins hreina og kostur er í ritmáli og við formlegar málaðstæður.
Með kveðju
[Sign.]“
Niðurstaðan er sem sagt sú að lýsingarorðið gregoríanskur eigi rétt á sér, a.m.k. ef miðað er við að það sé dregið af nafnmyndinni Gregoríus, en jafngilt sé frá málfarslegu sjónarmiði hvort nafnið Gregoríus eða nafnið Gregor er notað. Í mínum huga situr þá eftir spurningin um það hvort fremur eigi að rita (og segja) „Gregoríus“ eða „Gregor“. Mér hefur verið bent á að vænlegast væri að leita til kirkjusagnfræðinga um svör við þessu þar sem flestir þeir, sem borið hafa þetta nafn og fjallað er um hér á Wikipedia, hafi verið kirkjunnar menn. Hvað finnst öðrum um þetta? Birnuson (spjall) 28. febrúar 2014 kl. 13:40 (UTC)[svara]
Veit ekki með þetta að leita til sagnfræðinga (kirkjusagnfræðinga eða annarra) sem sérfræðinga um nafnmyndir. Held líka að það gæti bara endað með skoðanakönnun í þeirra röðum. Eða hvernig á hvaða forsendum ætti annars að velja einhvern einn þeirra til að skera úr um þetta? En ég veit svo sem ekki hvernig þetta ætti annars að vera útkljáð. Hingað til höfum við miðað við það sem er algengast (a.m.k. algengast af því sem er yfirleitt ekki augljóslega rangt eða síðri kostur) og gætum miðað við það sem er algengast í góðum ritum. --Cessator (spjall) 28. febrúar 2014 kl. 17:12 (UTC)[svara]
Tek undir með Cessator, mér finnst vera að gera úlfalda úr mýflugu og einfaldast að halda sig við það sem hefur verið mest notað og flestir þekkja best. Í rauninni finnst mér þetta dálítið hljóma eins og stríð milli skoðana fræðimanna og almennings. Almenningur hefur notað og þekkir þau nöfn og hugtök sem við vorum að nota, þú aftur á móti dregur fram lærðar ritgerðir fræðimanna (sem eru mjög fáir einstaklingar af allri þjóðinni) og villt fylgja þeim, því þeir hafi „rétt“ fyrir sér. Tungumál er lifandi hlutur og „rétt“ er afstætt, eins og að rita ó í orðinu kóngur en ekki neinum öðrum orðum með ng eð nk. Ég lít svo á að við séum að skrifa alfræðirit fyrir allan almenning og að forðast skuli í lengstu lög að skrifa lærðan fræðitexta, heldur á mæltu máli sem allir geti skilið. Því finnst mér þessi hugmynd þín að breyta öllum þessum heitum bæði óþörf og óæskileg. Því finnst mér það að leita til fræðimanna kirkjunnar alger fjærstæða og að þessu máli ætti að ljúka hér og nú og við halda okkur við þau nöfn og heiti sem við vorum með áður en þú byrjaðir að krukka í þessu. Enda sýnist mér þú ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn fyrir þessum breytingum hér inni svo þú vildir þá leita álits út í bæ. Það álit dugði ekki svo þú villt nýtt álit út í bæ, þetta hljómar í mín eyru eins og þráhyggja hjá þér (fyrir gefðu orðbragðið, en þetta er það sem mér finnst eftir að hafa lesið yfir alla þá umræðu sem hér hefur farið fram). Bragi H (spjall) 1. mars 2014 kl. 09:54 (UTC)[svara]